Guðsþjónustur

Sunnudaga kl. 11:00

Guðsþjónustur með altarisgöngu eru í Breiðholtskirkju hvern helgan dag kl. 11 og á tímabilinu frá sept. til loka apríl eru þær því samtímis sunnudagaskólanum. Börnin eru þá með hinum fullorðnu í messubyrjun, en fara síðan niður í safnaðarheimilið og ljúka samveru sinni þar.

Alþjóðlegi söfnuðurinn í Breiðholtskirkju hefur sitt helgihald kl. 14. Þær eru á ensku, en síðasta sunnudag í mánuði er guðsþjónusta á farsi.

Síðasta sunnudag í mánuði frá september til apríl eru Tómasarmessur.

Alþjóðlegi söfnuðurinn í Breiðholtskirkju

Sunnudaga kl. 14:00

Alþjóðlegi söfnuðurinn í Breiðholtskirkju (The International Congregation in Breiðholts Church) kemur saman á sunnudögum kl. 14:00 í Breiðholtskirkju. Hann hefur bænastundir og guðsþjónustur sem fara fram á ensku. Síðasta sunnudag í mánuði eru guðsþjónustur á farsí. Séra Toshiki Toma og séra Ása Laufey Sæmundsdóttir, prestar innflytjenda og hælisleitenda, hafa umsjón með starfinu.

Nánar um alþjóðlega söfnuðinn (á ensku)

Tómasarmessur

Síðasta sunnudag í mánuði kl. 20 (yfir vetrartímann)

Tómasarmessur eru að jafnaði síðasta sunnudag í mánuði kl. 20 á tímabilinu september til apríl. Heiti messunnar er dregið af postulanum Tómasi, sem ekki vildi trúa upprisu Drottins nema hann fengi sjálfur að sjá hann og þreifa á sárum hans. Þessari guðsþjónustu er ætlað að gera nútímamanninum auðveldara að skynja nærveru Drottins. Lögð er áhersla á upplifunarþátt messunnar, t.d. með margvíslegri bænaþjónustu, sálgæslu og fjölbreytilegum söng og tónlist, allt frá hefðbundnum sálmum við orgelleik til nútíma trúarsöngva við undirleik hljómsveitar. Stór hópur fólks tekur jafnan þátt í undirbúningi og framkvæmd Tómasarmessunnar.

Kyrrðarstundir

Miðvikudaga kl. 12:00

Kyrrðarstundir eru í hádeginu á miðvikudögum kl. 12:00 allt árið um kring. Organistinn byrjar á því að leika á orgelið meðan fólk er að koma til kirkju. Kl. 12:10 hefst síðan stutt helgistund með ritningarlestri, altarisgöngu og fyrirbæn. Að stundinni lokinni, um kl. 12:40 stendur til boða léttur málsverður í safnaðarheimilinu. Þátttakendur og starfsfólk kirkjunnar taka á móti bænarefnum.