Breiðholtssókn

Þann 14. janúar 1972 var Breiðholtssöfnuður stofnaður. Kjörinn var 5 manna stjórn og 3 til vara. Skipaður var starfshópur “Breiðholtshópur”, sem skipulagði sunnudagaskóla fyrir börnin. Þá var og undirbúin prestskosning. 28. maí 1972 var Sr. Lárus Halldórsson síðan kosinn prestur Breiðholtssafnaðar. Í fyrstu var messað í Bústaðakirkju. Þann 17. september 1972 hefjast messugjörðir í austuranddyri Breiðholtsskóla. Organisti og kórstjóri við fyrstu messugjörð var Guðmundur Gilsson en frá 1. október sama ár var Daníel Jónasson ráðinn organisti safnaðarins.

7. janúar 1973 var fyrsta guðsþjónustan í hátíðarsal Breiðholtsskóla. Þá var keypt rafmagnsorgel frá Hollandi. 14. apríl 1974 var safnaðarstjórn sent bréf frá borgarstjóra um úthlutun lóðar fyrir kirkjubyggingu í Mjóddinni. Kosin var byggingarnefnd og formaður kosinn Sigurður E. Guðmundsson. Í framhaldi af því var efnt til samkeppni um hönnun kirkju. Í júní 1977 lýkur samkeppninni og bárust 19 tillögur. Valin var teikning Guðmundar Kr. Kristinssonar og Ferdinands Alfreðssonar arkitekta og Harðar Björnssonar byggingaverkfræðings. 5. nóvember 1978 á allra heilagra messu, var fyrsta skóflustungan tekin af sr. Lárusi Halldórssyni. Byggingameistari við kirkjubygginguna var ráðinn Kristinn Sveinsson.

1980 lauk steypuvinnu við neðri hæð kirkjunnar sem mun í framtíðinni verða safnaðarheimili kirkjunnar. 1983 eru burðarstoðir kirkjunnar reistar. Árið 1986 lætur sr. Lárus Halldórsson af störfum og sr. Gísli Jónasson kosinn sóknarprestur í hans stað. Þann 13. mars 1988 er kirkjan vígð af herra Pétri Sigurgeirssyni biskupi. Safnaðarheimilið var tekið í notkun 12. janúar 1992.

Dr. dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Hann hóf störf sem héraðsprestur 1. apríl 1993. Hann hefur haft skrifstofuaðstöðu í Breiðholtskirkju frá árinu 2001 og þjónað Breiðholtssókn í leyfum presta kirkjunnar.

1. mars 2003 var sr. Lilja Kristín Þorsteinsdóttir sett sem prestur við kirkjuna en hún lét síðan af störfum 1. september 2005.

Sr. Bryndís Malla Elídóttir kom til starfa við kirkjuna 1. september 2005 og var hún starfandi héraðsprestur við söfnuðinn til ársloka 2014.

Sr. Sigurður Grétar Helgason var settur til prestsþjónustu í hlutastarfi í nokkra mánuði vorið 2015 og sr. Jón Dalbú Hróbjatsson í ágúst og september sama ár.

Sr. Þórhallur Heimisson var settur sóknarprestur 1. október 2015 og gegndi því starfi til 31. desember 2017 í leyfi sr. Gísla.

Sr. Magnús Björn Björnsson var settur sóknarprestur 1. janúar 2018. Hann lauk störfum vegna aldurs 30. nóvember 2022.