Ferming er alltaf stór stund í lífi hvers ungmennis og fermingarfræðslan gott veganesti út í lífið. Við leggjum okkur fram um að gera fermingarveturinn eftirminnilegan, þroskandi og innihaldsríkan og verður boðið upp á fjölmarga skemmtilega viðburði líkt og fermingarferð í Vatnaskóg og fermingarmót með öllum fermingarbörnum í Breiðholti.
Það eru fræðslutímar í hverri viku yfir veturinn og er viðfangsefnið þar fyrst og fremst kærleiksboðskapur Jesú og grunnatriði kristinnar trúar. Einnig er rík áhersla á sjálfstyrkingu, hópefli og lifandi fræðslu. Undanfarin tvö ár hefur fermingarfræðslan verið sameiginleg í Fella- og Hólakirkju og Breiðholtskirkju og það komið sérstaklega vel út. Umsjón með fermingarfræðslunni hafa sr. Jón Ómar og sr. Pétur.