Listahátíð í kirkjum Breiðholts!
Dagana 29. mars til 5. apríl verður fjölbreytt listahátíð í Breiðholtskirkju, Seljakirkju og Fella- og Hólakirkju. Hátíðin hefst laugardaginn 29. mars með opnun kl. 16 í Breiðholtskirkju þar sem skáld lesa úr verkum sínum, kór hátíðarinnar, sem telur um 100 manns, syngur og ýmsir valinkunnir tónlistarmenn koma fram. Sama dag verða opnaðar listsýningar nemenda Fjölbrautaskólans í Breiðholti í Breiðholskirkju og Fella- og Hólakirkju. Sýningarnar verða opnar alla vikuna á opnunartíma kirknanna.
Alla vikuna verða svo ýmsir listviðburðir í kirkjunum. M.a. verður sýnt leikritið Eldklerkurinn, Spilmenn Ríkínís færa okkur tónlist fyrri alda, börn og unglingar úr tónlistarskólum, skólahljómsveit og barnakórum hverfisins koma fram á tónleikum æskunnar og nokkrir af fremstu jazzpíanóleikurum þjóðarinnar munu spinna yfir eldri og yngri sálmalög. Hátíðinni lýkur svo með stórtónleikum í Fella- og Hólakirkju þann 5. apríl kl. 17. Þar koma fram Kór Breiðholskirkju, Seljakirkju, Fella- og Hólakirkju og Kópavogskirkju auk Lögreglukórsins í Reykjavík og munu kórarnir flytja verkið Requiem eftir breska tónskáldið John Rutter ásamt hljómsveit og einsöngvara.
Allar nánari upplýsingar um dagskrána má nálgast í kirkjunum eða á síðunni www.facebokk.com/djupogbreid