Sunnudaginn 6. maí verður hin árlega safnaðarferð sóknarinnar.  Að þessu sinni verður haldið austur í sveitir og ekið sem leið liggur að Sólheimum í Hrunamannahreppi.  Þetta er svokallað „opið bú“ þar sem tekið er á móti gestum.  Þar gefst færi á að skoða nútíma landbúnað m.a. fjós og nýfædd lömb.  Síðan verður haldið að kirkjustaðnum Hruna þar sem sr. Eiríkur Jóhannesson mun taka á móti hópnum og segja frá kirkjunni.  Á leiðinni til baka verður farið yfir nýju Hvítárbrúna og komið við í Skálholti þar sem boðið verður upp á eftirmiðdagshressingu.  Síðan verður ekið heim yfir Lyngdalsheiðina til Þingvalla og þaðan um Mosfellsheiðina til Reykjavíkur.

Ferðin kostar 2500 kr. ókeypis er fyrir börn yngri en 14 ára í fylgd fullorðinna.  Nauðsynlegt er að taka með sér nesti fyrir hádegishressingu.  Lagt verður af stað frá kirkjunni kl. 10 og áætluð heimkoma er um kl. 16:30.  Skráning er í síma 587 1500 eða á breidholtskirkja@kirkjan.is