Það var hátíðleg stund í kirkjunni í dag þegar leikskólabörnin komu til þess að eiga aðventustund í kirkjunni sinni.  Börn úr leikskólanum Arnarborg sýndu helgileik, sjálft jólaguðspjallið, á sinn einstaka hátt.  Öll börnin tóku vel undir í sálmum og jólasöngvum og hlaut organistinn mikið lófatak fyrir leik sinn á orgelið.  Mikilvægt var síðan að klæða sig vel áður en hóparnir gengu til baka í leikskólana því nú er kalt á Fróni.

Jólastund í starfi eldri borgara var einnig fjölmenn í dag.  Sérstakir gestir voru Þorvaldur Halldórsson sem lék og söng jólalög og Óskar Guðmundsson rithöfundur kynnti bók sína Brautryðjandinn sem fjallar um ævi Þórhalls Bjarnasonar.   Í lok stundar var síðan boðið upp á aðventukaffi og notalegt spjall.

Það er dýrmætt að geta komið til kirkju og sótt þar helgi aðventunnar og þann boðskap sem engan svíkur um lítið barn sem lagt var í jötu, frelsara mannkyns.   Þeim boðskap var lyft upp í dag hjá ungum sem öldnum sem þökkuðu Guði fyrir kærleika sinn í Jesú Kristi.