Sunnudaginn 26. september verður hausthátíð kirkjunnar kl. 11.  Hátíðin hefst með fjölskyldustund í kirkjunni með þátttöku barnakóra kirkjunnar.   Síðan verður farið út og niður í safnaðarheimili þar sem ýmsar þrautir og leikir verða í boði fyrir hressa krakka.  Einnig verður myndlistarsýning úr barnastarfinu og kærleikstréð til sýnis sem söfnuðurinn hefur unnið að í sameiningu.  Boðið verður upp á grillaðar pylsur og kaffisopa.  Söfnunarbaukur Hjálparstarfs kirkjunnar verður að sjálfsögðu á sínum stað.  Hausthátíð kirkjunnar er tilvalið tækifæri til þess að kynnast vetrarstarfi safnaðarins og eiga góða stund með fjölskyldu og vinum.

Fyrsta Tómasarmessa vetrarins verður kl. 20 nk. sunnudagskvöld.  Umfjöllunarefni messunnar er spurningin hvort tími kraftaverkanna sé liðinn.  Hópur presta, djákna og leikmanna tekur virkan þátt í messunni og býður meðal annars upp á fyrirbæn með handayfirlagningu og smurningu.  Tómasarmessan er oft kölluð skemmtilega messan af fermingarbörnunum sem kunna vel að meta fjölbreytt og frjálslegt form messunnar.  Boðið er upp á molasopa í safnaðarheimilinu að messu lokinni.