Dagurinn hófst í kirkjunni með fundi presta og djákna í prófastsdæminu kl. 8:30. Að honum loknum var kyrrðarstundin undirbúin sem hófst kl. 12. Boðið var upp á fiskisúpu í hádeginu og voru 25 við matarborðið að þessu sinni. Kl. 13:30 hófst starf eldri borgara, Maður er manns gaman. Þar var vetrarstarfið kynnt og síðan tekið í spil eða dregin upp handavinna. Samverunni lauk með kaffi og kökum. Kirkjukrakkarnir mættu kl. 16 og tóku til við að mála á glugga safnaðarheimilisins og kl. 16:30 var sameiginlegur fundur héraðsnefnda Reykjavíkurprófastsdæmanna. Kl. 20 hefst síðan æskulýðsstarfið sem er samstarfsverkefni KFUK/M og kirkjunnar. Fermingarbörnin munu taka þátt í æskulýðsstarfið svo búist er við hátt í 40 unglingum í kvöld. Á þessum miðvikudegi munu því rúmlega 130 manns koma í kirkjuna til samfélags og blessunar.