Nýtt kirkjuár hófst síðastliðinn sunnudag, á fyrsta sunnudegi í aðventu.   Með nýju ári fögnum við  nýju upphafi þar sem við fáum tækifæri til að endurnýjast sem Guðs góða sköpun.  Á slíkum tímamótum er gott að hugleiða hvaða þýðingu nýtt kirkjuár hefur fyrir okkur.  Hugleiða eigin trú og biðja þess að hún megi styrkjast og eflast Drottni til dýrðar á nýju kirkjuári.  Af því tilefni verður efnt til pílagrímagöngu frá Breiðholtskirkju fimmtudaginn 4. desember kl. 17:15. Pílagrímaferðir eru gömul hefð í flestum kristnum kirkjudeildum.  Sú breyting hefur orðið á hefðinni að í dag liggur leiðin ekki endilega til helgra staða; lokastaðurinn er ekki markmiðið í sjálfu sér.  Fremur er það pílagrímagangan sjálf sem er orðin aðalatriðið.   Sú verður einmitt reyndin í pílagrímagöngunni  nk. fimmtudag.  Börn úr TTT starfi Breiðholtskirkju munu taka þátt í göngunni  þar sem horft verður til umhverfis kirkjunnar um leið og sköpunarsagan úr I. Mósebók verður lesin.  Áætlað er að gangan taki 30 mínútur og því ættu allir fjölskyldumeðlimir að geta komið með.   Eftir gönguna getur göngufólk komið inn í safnaðarheimilið og átt þar notalega stund saman.